Punch-Drunk Love

Punch-Drunk Love

 

Punch-Drunk Love albúmið.

Bandaríkin, 2002.

Leikstjóri: Paul Thomas Anderson.

Handrit: Leikstjórinn.

Helstu hlutverk:

Adam Sandler = Barry Egan, fyrirtækiseigandinn.

Adam Sandler er hér í mun alvarlegra hlutverki en venjulega.

Emily Watson = Lena Leonard, sú sem verður kærasta Barrys.

Luis Gusmán = Lance, undirmaður Barrys í fyrirtækinu.

Mary Lynn Rajskub = Elizabeth, ein af systrum Barrys, sú sem skiptir sér mest af honum. Það er Elizabeth sem kemur með Lenu til að kynna hana fyrir Barry. Hún vonar að þau nái saman - og það gera þau!

Philip Seymour Hoffman = Dean Turmbell. Glæpamaðurinn sem rekur teppaverslun og kynlífsþjónustu í gegnum síma. Hann herjar líka á þá viðskiptavini símalínunnar sem eru svo vitlausir að gefa honum upp bankaupplýsingar.

Jason Andrews = Röddin í kynlífsþjónustu símans.

Don McManus = Plastic, karlmannsröddin, sú sem fer að hringja í Barry og hóta honum öllu illu.

Robert Smigel = Walter. Tannlæknirinn sem er giftur einni af systrum Barrys, sá sem Barry leitar til í sálfræðilegum vandamálum sínum.

 

Mínúturnar:

000 = Barry Egan (Adam Sandler) er einmana á skrifstofu fyrirtækis síns að hringja.

Áhersla er lögð á það í byrjun myndarinnar að sýna Barry einan á ópersónulegri skrifstofu. Hvers vegna?

001 = Snögg bílvelta og á sama tíma kemur sendiferðarbíll með lítið píanó. Það er skilið eftir á gangstéttinni!

003 = Lena Leonard (Emily Watson) kemur með bíl í viðgerð á verkstæði rétt hjá fyrirtæki Barrys, hún biður hann að geyma bíllyklana, þar sem enginn er enn kominn í bílaverkstæðið. Hún nefnir í framhjáhlaupi að það sé píanó á gangstéttinni (hvað merkir þetta píanó eiginlega í bíómyndinni?).

005 = Barry fer loks og sækir píanóið, setur það niður inni á skrifstofu sinni og spilar örlítið á það.

007 = Undirmenn Barrys mæta í vinnuna, Barry, eigandinn, er greinilega samviskusamur og mætir langt á undan öðrum. Við lærum fljótlega að hann er óvenjulega vel klæddur, kominn í blá jakkaföt.

008 = Barry er að selja vörur sínar en systur hans hringja í sífellu í hann. Þær hafa greinilega áhyggjur af honum. Ætlar hann ekki örugglega að mæta í fjölskylduveisluna í kvöld?

012 = Ein systirin, Elizabeth (Mary Lynn Rajskub) mætir meira að segja í vinnuna til Barrys til að tryggja að hann komi örugglega í veisluna. Hún ætlar nefnilega að mæta með stúlku - date - handa Barry.

013 = Barry mætir þrátt fyrir allt í veisluna, en hann varð verulega stressaður þegar systirin sagðist ætla að koma með stúlku. Barry þolir greinilega ekki vel margmenni.

016 = Barry stressast svo upp í veislunni (án sýnilegrar ástæðu) að hann ræður ekki við sig og brýtur tvær glerhurðir. Í framhaldi af því leitar hann sálfræðilegrar meðferðar hjá einum af gestunum, honum Walter, sem er giftur einni af systrunum. Eini gallinn er að Walter er bara tannlæknir! Walter segist þó ætla að finna geðlækni fyrir hann. Þau einkenni sem Barry nefnir sérstaklega eru tvö:

- I don't know how other people are, og

- I sometimes cry allot for no particular reason.

019 = Barry fer í súpermarkað, en veit ekkert hvað hann á að kaupa. Hann gengur fram og aftur um búðina og kaupir ekki neitt. Að lokum ákveður hann að kaupa mikið magn af ákveðnum búðingi vegna þess að í boði er dæmigerður bandarískur kaupauki, í þessu tilviki flugmílur, ef þú kaupir ákveðið magn af búðingnum. Líklega hefur hönnuður kaupaukans ekki dottið í hug að einn og sama maðurinn myndi kaupa upp allan lagerinn.

021 = Barry er að lesa um kaupaukann þegar hann rekst á auglýsingu um (kynlífs)símastúlku. Hann hringir. Barry er ekki snjall þegar hann gefur stúkunni upp persónulegar upplýsingar, ekki bara símanúmer og heimilisfang, heldur líka kreditkortanúmer sitt. Ekki gáfulegt.

026 = Stúlkan talar lengi við hann og reynir að æsa hann upp kynferðislega. Barry virðist ekki hafa hringt þess vegna. Hvers vegna þá? Morguninn eftir hringir stúlkan í hann! Og biður um peningastyrk, 750 dollara.

028 = Barry gerir rétt og segist ekki hafa efni á því, en hún heldur áfram að nuða í honum. Barry líður mjög illa yfir þessu, en skellir þó á, en hún hringir þá bara aftur og aftur.

Systir Barrys kemur í vinnuna með vinkonu sína með sér. Barry stressast upp.

031 = Elizabeth systir Barrys kemur aftur í heimsókn í vinnuna hjá Barry. Hún er með vinkonu sína með sér, hana Lenu, konuna sem á bílinn. Greinilegt er að hún hefur áhuga á Barry. Hann er þó svo stressaður út af símamálinu að hann getur varla talað við þær. Hann fælir Lenu frá sér. Lena hverfur á braut, en snýr svo við og segist vilja út að borða með Barry. Hann getur ekki annað en sagt já.

040 = Barry og Lena fara út að borða saman. Lena segir Barry strax að hún hafi ekki þurft að fara með bílinn í viðgerð, heldur bara að það hafi verið hennar aðferð til að nálgast Barry. Hann er auðvitað upp með sér af þessari játningu, en stressast ógurlega, á greinilega erfitt með mannleg samskipti. Þegar stressið nær ákveðnu stigi þá virðist hann ekki ráða við sig, hann rýkur inn á salerni matsölustaðarins og mölbrýtur allt þar. Eigandi staðarins getur ekkert sannað á þau, en rekur þau allavega út af matsölustaðnum.

049 = Barry og Lena kyssast, en þegar allt virðist loks vera að ganga betur hjá Barry, þá ræna 3 strákar honum og þvinga hann til að taka út hámarksupphæð í hraðbanka handa þeim. Þeir eru útsendarar frá klámsímaþjónustunni.

Tókstu eftir því að Barry er oft hlaupandi einn eftir gögnum og gangstéttum. Hvers vegna?

053 = Barry flýr frá þeim og fer í vinnuna. Þar hittir hann undirmann sinn, Lance (Luis Gusmán) og segir honum frá vandamáli sínu. Barry tekur ráðum Lance og fer snöggt í frí til Hawaii, en þangað fór nýja kærasta hans, vinnu sinnar vegna. Hann ætlar að láta búðinginn borga ferðina, en honum er sagt að það taki nokkrar vikur að ganga frá pappírunum.

Tókst þú eftir því að alls konar sjónáreiti eru reglulega sýnd í myndinni. Við hvaða aðstæður?

055 = Barry lemur fast í vegginn (stressviðbrögðin hans), er ákveður að fara samt til Hawaii. Þetta er greinilega mikil ákvörðun fyrir hann. Barry hefur greinilega hingað til lifað reglubundu lífi, hann hefur t.d. aldrei áður flogið.

058 = Barry er kominn til Hawaii, en áttar sig þá á því að hann veit ekkert hvar kærastan er! Hann hringir í systur sína og er mjög æstur - er alveg að fríka út.

Með sjónáreitunum er oft óþægileg tónlist, t.d. þegar Barry er að tala við fólk. Hvers vegna?

061 = Barry finnur loks kærustuna á flottu Sheraton hóteli. Hún er mjög ánægð að hann sé kominn. Þau fara saman upp á hótelherbergi.

065 = Morguninn eftir hringir kærastan í systur Barrys, en segir henni ekkert að Barry sé hjá henni.

068 = Barry er orðinn ástfanginn og ást hans er svarað í sömu mynt. Honum finnst hann geta allt. Hann hringir frá Hawaii í klámsímaþjónustuna og heimtar peningana til baka!

070 = Barry og Lena fljúga heim og Lena segist vilja koma heim með honum, en á því augnabliki þegar hann er að keyra bílinn inn í bílskúrinn heima hjá sér keyra fantarnir 3 á hann, þeir sömu og rændu hann fyrir Hawaii ferðina. Þetta er harkalegur árekstur og Lena fær höfuðhögg. Barry trompast algerlega (eins og áður?) og gengur beint til verks. Hann fer rakleitt að bílnum sem keyrði á hann, ríkur kúbeinið af fyrsta bróðurnum og lemur þá alla í klessu. Að því loknu réttir hann þeim kúbeinið aftur og fer með Lenu á spítala.

072 = Barry sér að læknar eru að sinna Lenu, þegar hún er í spítalarúminu að jafna sig ákveður hann að hringja í klámþjónustuna. Hann nær sambandi við stúlkuröddina, öskrar á hana og heimtar að fá að tala við yfirmann hennar. Sá drullusokkur, Dean Turmbell (stórleikarinn Philip Seymour Hoffman) svarar í sömu mynt og þeir öskra hvor á annan. Það má ekki á milli sjá, hvor hefur yfirhöndina.

074 = Barry fer aftur inn á spítalann, en þá er kærastan útskrifuð. Barry afræður þá að hringja enn einu sinni. Nú vill hann allar upplýsingar um klámsímaþjónustuna. Hann lærir að það sé undirfyrirtæki í teppabúð sem er rekin af Turmbell. Barry fer þangað, þótt það virðist vera í öðru fylki, alla vega annarri borg. Barry kemur þegar Turmbell í er láta klippa sig. Barry gengur rakleitt að honum og þeir öskra enn upp í andlitið hvor á öðrum. Barry segir þá setningu myndarinnar:

- I have a love in my life now, that makes me incredibly strong ...

- Did you get that, matress man?

078 = Rifrildinu lýkur ekki með dæmigerðum bandarískum slagsmálum (sem betur fer), heldur kannski jafntefli og Barry fer aftur heim. Þegar þangað er komið fer hann í vinnuna. Þar sér hann píanóið litla og honum dettur eitthvað í hug. Skiptir þá engum togum og Barry tekur píanóið upp og hleypur með það alla leiðina til kærustunnar (hvers vegna?). Hann segir henni alla söguna og biður hana að fyrirgefa sér. Hún gerir það.