Taxi Driver

 Titill: Taxi Driver.

Önnur útgáfa af Taxi driver kápunni.

Útgáfuár: 1976.

Útgáfufyrirtæki: Bill / Phillips & Italo / Judeo Productions.

Dreyfingaraðili: Columbia Pictures.

Land: Bandaríkin.

Framleiðandi: Julia Phillips, Michael Phillips.

Lengd: 113 mín.

 Stjörnur: 8,3* (Imdb) og 9,8* + 9,3* (RottenTomatoes).

Leikstjóri: Martin Scorsese.

Allar myndir leikstjóransWho's That Knocking at My Door (1967), Mean Streats (1973), Alice Doesn't Live Here Anymore (2009), Taxi Driver, (1976), New York, New York (1977), Raging Bull (1980), The King of Comedy (1983), After Hours (1985), The Color of Money (1986), Goodfellas (1990), Casino (1995), Gangs of New York (2002), Aviator (2004), The Departed (2006), Shutter Island (2010), Hugo (2011), The Wolf of Wall Street (2013), Silence (2016) og væntanlegar The Devil in the White City á þessu ári og The Irishman 2019-20. Auk þessara stórmynda þá hefur Scorsese gert margar heimildamyndir, t.d. The Last Waltz (1978), kveðjutónleikar hljómsveitarinnar The Band og fleiri myndir um blús tónlist, Rolling Stones, líka Bob Dylan. Að lokum má benda á að hann leikstýrði tónlistarmyndbandinu "Bad" með Michael Jackson!

Handrit: Paul Schrader. Hann skrifaði handritið samfellt á 5 dögum og geymdi hlaðna byssu á borðinu við hliðina á ritvélinni til að hvetja sig áfram. Sagan er að hluta til sjálfsævisaga Schraders, sem fékk taugaáfall á meðan hann bjó í Los Angeles. Hann var rekinn frá AFI (American Film Institute), átti fáa vini og í miðjum skilnaði þá hafnaði vinkona hans honum. Hann bjó í 2 mánuði án leyfis í íbúð fyrrverandi kærustu sinnar, sem var erlendis á meðan og vissi ekki af því. Schrader bókstaflega talaði ekki við neinn í nokkrar vikur, fór á klámmyndir og þróaði með sér mikinn áhuga á byssum. Hann á það einnig sameiginlegt með Bickle að finnast hann vera utanbæjarmaður í stórborg. Schrader færði þó atburðarásina til New York City þar sem leigubílstjórar eru mun algengari. Handrit Schraders vakti strax áhuga bæði leikstjórans Scorsese og leikarans De Niro.

Schrader og Bincle.

Tónlist: Bernard Hermann.

Kvikmyndataka: Michael Chapman.

Klipping: Marcia Lucas, Tom Rolf & Melvin Shapiro.

Kostnaður / tekjur: 28.300.000$ / 1.300.000$ = 27 milljónir dollara í gróða.

Slagorð: Are You Talkin' To Me?

Trailer: Gerið svo vel.

Leikarar / hlutverk:


Robert De Niro = Travis Bickle, fyrrverandi hermaður (landgönguliði), en keyrir nú leigubíl, á erfitt með að sofa og keyrir því mikið á nóttunni. Við vitum ekki hvað er að honum, en hann er einmana.

Cybill Shepherd = Betsy. Sú sem vinnur á kosningaskrifstofunni.

image.png

Peter Boyle = Wizard. Sköllótti leigubílstjórinn.

Tom, samstarfsmaður og vinur Betsyar á kosningaskrifstofunni. Sá eini í myndinni sem er með húmor.

Albert Brooks = Tom. Krullhærði vinur Betsyar á kosningaskrifstofunni. Albert Brooks er í dag fyrst og fremst þekktur sem handritshöfundur.

image.png

Leonard Harris = Charles Palantine þingmaður, sá sem er í framboði til forseta, sem Betsy og Tom vinna fyrir.

Harvey Keitel = Sport. Melludólgurinn. Þessi leikari á heiður skilinn, er hvað eftir annað tilbúinn til að leika minni hlutverk, t.d. í fyrstu myndum ungra leikstjóra.

Iris

Jodie Foster = "Easy," Iris Steensma 13 ára mellan. Þar sem Jodie Foster var aðeins 14 ára gömul 1976, mátti hún ekki  (skv. lögum) leika grófari senurnar. Iris - karakter hennar átti að vera aðeins 12 ára gömul. Connie Foster, 21 árs systir Jodie, var látin leika í þeim senum.

Martin Scorsese sjálfur. Hér leikur hann verulega afbrýðisaman eiginmann.

Martin Scorsese sjálfur = Ruglaði farþeginn, hvers kona er í glugganum. Hann segir að leikarinn hafi veikst á seinustu stundu, en líklega langaði Scorsese bara að leika sjálfur.

Leigubíllinn sjálfur. Mikilvægt hlutverk!

Leigubíllinn = Venjulegur gulur leigubíll í Manhattan, New York. Að ofan kemur fram að handritshöfundur lýsir mestmegnis eigin lífi þegar hann skrifar handritið, en hans reynsla var í Los Angeles. Hann færði söguna til New York vegna leigubílanna þar.

Ökuskýrteini De Neros.

Sagt er að Robert De Niro hafi unnið 12 tíma á dag í mánuð að keyra leigubíl til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Þegar ljóst var að Robert De Nero fengi hlutverkið var hann að leika á Ítalíu. Þegar hann fékk helgarfrí frá þeirri mynd, keypti hann sér far til New York og keyrði leigubíl þá helgi. Þetta gerði hann oftar en einu sinni. Þeir kalla þetta "method acting" leikaðferð.

Reykurinn og myrkrið í New York. Hvað merkir þetta allt?

Reykur og rigning = Ýmsir tæknimenn. Táknmyndir helvítis?!

Þróun aðalpersónunnar:

image.png
ss
Taxi Driver. Travis Bickle eftir miðja mynd.
Travis Bickle orðinn algerlega stjórnlaus.
Að lokum sjálfsmorðstilburðir.
image.png

Spurning: Er þessi seinasta mynd á réttum stað, er þessi mynd tekin við upphaf myndarinnar eða í lokin??


Umsnúningar í myndinni

1. Eitt krítískt augnablik í myndinni er þegar Travis ræðir við "Wizard" - leigubílstjórann og biður um ráð. I've got these crazy ideas in my head, segir hann. En því miður stendur Wizard ekki undir nafni.

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=rDgXeYlpbOE

2. Annað forvitnilegt og óhuggnanlegt atriði er þegar Travis er úr í búð og verður vitni að búðarráni. Hann grípur inn í atburðarásina og þá verður ekki aftur snúið.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=Mks9E7kdhGY

3. Afkáralegt atriði er þegar Travis Bickle býður Betsy í bíó, á sænska klámmynd!

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=mDKaiXRE9cw

4. Mjög mikilvægt atriði er þegar Iris kemur fyrst inn í bílinn hjá Travis og Sport dregur hana í burtu og hendir krumpuðum seðli inn í bílinn. Travis lítur á þennan krumaða seðil sem tákn.

5. Enn eitt atriði er eftir að Travis og Iris sitja saman á diner, þá er "rómantísk" sena á milli Sport og Irisar. Þetta er eins sena myndarinnar þar sem Travis Bickle er ekki nálægt - ekki áhorfandi eða þátttakandi.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=UneHDzMhbbw

6. Öll skotárásin er auðvitað lykilatriði myndarinnar, sérstaklega þar sem atriðið er tekið út frá svo sérkennilegum sjónarhól. Tókstu eftir því?

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=_CImWc7og28

7. Loks er það auðvitað lokasenan, þegar Travis Bickle - leigubílstjórinn er aftur kominn til starfa - og hittir Betsy.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=X4wsSRpKXNU

Forvitnilegt álit Quintin Tarantinos á Taxi Driver:

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=7CI8b1X413c

Sjónarhorn myndarinnar er alltaf Travis Bickle (með einni undantekningu).

Dæmigert Scorsese skot. Við sjáum umhverfið í gegnum augu Travis Bickle.


Mínútur = Atriði

0:00 = Textinn.

0:02 = Travis Bickle (Robert De Nero)  labbar inn á leigubílastöð og biður um vinnu.

0:05 = Travis kemur heim.

0:06 = Travis keyrir um á leigubílnum.

0:07 = Travis skilar bílnum eftir vinnudaginn.

0:08 = Travis getur ekki sofið og fer á klámmynd.

0:09 = Travis fer heim í herbergi sitt.

0:10 = Travis sér fyrst Betsy (Cybill Shepherd).

0:11 = Betsy spjallar við vin sinn Tom (Albert Brooks) á kosningaskrifstofunni.

0:12 = Travis situr í leigubílnum og horfir á þau tala saman.

0:13 = Travis keyrir burt þegar þau taka eftir því að hann starir inn á kosningaskrifstofuna.

0:14 = Travis hittir aðra leigubílstjóra á matsölustað þeirra.

0:18 = Kosningaskrifstofan aftur.

0:19 = Travis fer inn á kosningaskrifstofuna og segist vilja vinna sjálfboðavinnu þar.

0:23 = Travis sannfærir Betsy um að drekka kaffi með sér eftir vinnu.

0:26 = Travis kaupir plötu sem Betsy mælti með.

0:27 = Travis hittir óvart Palantine - frambjóðandann (Leonard Harris).

0:30 = Iris "Easy" Steensma (Jodie Foster) stekkur inn í leigubílinn, reynir að flýja aðstæður sínar, en melludólgurinn “Sport” (Harvey Keitel) dregur hana út og borgar Travis einn krumpaðan seðil, sem Travis vill svo varðveita. Hvers vegna?

0:31 = Svertingjar henda ávöxtum á leigubílinn.

0:32 = Trommarinn!

0:33 = Travis býður Betsy í bíó – á sænska klámmynd!

0:35 = Betsy strunsar út úr bíóinu, ákveðin í að slíta sambandinu við Travis.

0:36 = Travis hringir endurtekið í Betsy – án árangurs. Leikstjórinn Martin Scorsese heldur því fram að þetta atriði sé það mikilvægasta í myndinni, þegar myndavélin færist frá honum yfir á tóman ganginn. Lýsir vel sálarástandi Travis.

Þessu atriði er Scorsese sjálfur stoltastur af:


Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=8bukPGph2ec

0:37 = Travis gengur inn á kosningaskrifstofu Palantine – honum er hent út, kallað á lögguna.

0:38 = Travis keyrir afbrýðisaman - raunar alveg brjálaðan eiginmann - leikinn af Martin Scorsese leikstjóranum - sem lætur Travis parkera fyrir utan íbúð þar sem eiginkonan er víst að halda framhjá. Hann - Scorsese - talar um að skjóta þau bæði!

0:42 = Leigubílstjórar tala saman á matsölustaðnum.

0:44 = Travis segir Wizard (Peter Boyle) frá uppgangi ranghugmynda sinna, en fær bull í ráðgjöf og lítinn skilning. Stórkostleg sena!

0:48 = Travis horfir á Palantine í sjónvarpi.

0:49 = Travis rekst aftur á Iris, nú í fylgd með vinkonu sinni.

0:52 = Travis kaupir sér byssu, ekki eina heldur allan pakkann!

0:55 = Travis æfir sig í skotfimi.

0:56 = Travis býr til alls konar byssuhulstur.

0:59 = Travis mætir á kosningafund, talar við öryggisvörð um starf hans.

1:02 = Öryggisverðinum finnst hann grunsamlegur og skrifar hann niður.

You talkin' to me?

1:03 = Are you talking to me? Ein frægasta setning kvikmyndasögunnar! Þessi setning er í 10da sæti yfir þekktustu setningar kvikmyndanna (American Film Institute):

Robert DeNiro (Travis): You talkin’ to me? You talkin’ to me? You talkin’ to me? Then who the hell else are you talkin’ to? You talkin’ to me? Well I’m the only one here. Who do you think you’re talking to? Oh yeah? Huh? Ok.

Travis Bickle setningin “You talkin’ to me?” er líklega runnin undan rifjum leiklistarkennara hans, Stella Adler, en hún lét nemendur sína æfa setningar sínar með alls konar túlkunum. En þegar Stella, sem er þekktur leiklistarkennari, var spurð að þessu, þá var hún hissa á því að De Niro sagði setninguna aftur og aftur eins og hann væri í geðrofsástandi. Martin Scorsese var hrifin af þessum "leikaraskap" og hvatti De Niro áfram allt að því að hann talar við sjálfan sig í spegli. Þó má finna aðrar og nærtækari rætur fyrir setningunni: You talkin’ to me? Well, I don’t see anyone else here.


1) Setningin er í raun mjög lík því sem Alan Ladd og Ben Johnson segja hvor við annan rétt áður en þeir hefja dæmigerð slagsmál á bar í þekktri kúrekamynd: Shane (1953). Ég hef ekki fundið senuna enn þá, en hér er frægasta atriði myndarinnar:

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=NE3mHhpGV2A


2) Margar heimildir segja að Robert De Nero sé að "improvisera" þegar hann talar við sig í speglinum. Í handritinu segir bara: “Travis looks in the mirror.” Martin Scorsese hefur bent á að De Nero fái hugmyndina frá þeim stórkostlega leikara Marlon Brando þar sem hann talar við sig í spegli í myndinni: Reflections in a Golden Eye.

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=LU6FP5Fnzsg


Skoðum atriðið sjálft:

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=lQkpes3dgzg

Robert De Niro fékk tækifæri seinna til að vísa í eigin texta í Taxi Driver!

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=epZxUhCE5l8

Ótrúlega margir hafa reynt við þetta atriði. Sjáið t.d. þetta:

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=4IXmHqPWxUw

Seinfeld:

Heimild: http://www.youtube.com/watch?v=quu9Uzmjs50

Eða þetta!

http://www.youtube.com/watch?v=XJNnDCOK_gw

Woody Allen eftirherma!

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=ihHw3de86xs

1:05 = Travis verður vitni að búðarráni – það vill svo til að hann er vopnaður og skýtur þann sem ætlar að ræna búðina. Búðareigandi þakkar honum fyrir.

Mikilvægt atriði í myndinni. Travis Bickle er smám saman að verða geðveikur, en nú verður ekki aftur snúið.

1:07 = Travis horfir fjarrænn á sjónvarpið.

1:08 = Travis sér Betsy.

1:11 = Travis horfir enn á sjónvarpið, búmm!

1:12 = Travis hittir melludólginn “Sport” og kaupir sér tíma hjá Iris.

1:15 = Travis fer með Iris eftir löngum gangi inn í herbergi.

1:17 = Travis reynir að tala um fyrir henni, segir henni að hætta. Hún spyr hvort þeirra sér geggjaðri?

1:21 = Travis borgar melludólg fyrir tímann.

1:22 = Travis og Iris hittast utan vinnu og verða vinir. Travis pantar sér eplaköku með bráðnuðum osti, eins og morðinginn Ed Gein gerðir þegar hann var handtekinn, en þá sagðist hann myndi játa á sig morðin, ef hann bara fengi eplaköku!

Eftirfarandi atriði er mjög athyglisvert. Það er eitthvað svo eðlilegt. Ástæðan er sú að Robert De Nero bauð Jodie Foster endrutekið á kaffihús, á meðan á töku myndarinnar stóð. Jodie hefur sagt svo frá að hún hafi ekki skilið þetta, vegna þess að De Nero sagði mest lítið á kafffihúsinu. Þau sátu bara og drukku kaffi. Hún segist skilja þetta núna. Til að láta þau venjast hvort öðru, þannig að þegar þau leika senuna, þá eru þau orðin mjög eðlileg. Jodie segir líka svo frá að þegar hún hellti sykrinum á brauðið, þá hafi hún verið að herma eftir ungri rússnesk ættaðri vændiskonu sem þjálfaði hana fyrir hlutverkið. Hún borðaði bauðið svona!

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=UneHDzMhbbw

1:26 = Iris og Sport saman. Dansa. Eina atriðið sem Travis er ekki viðstaddur.

1:29 = Travis æfir sig í að skjóta.

1:30 = Travis mætir á kosningafund til að skjóta Palantine, en verður frá að hverfa – öryggisverðir sjá hann nálgast frambjóðandann.

1:34 = Travis talar við melludólginn, skýtur hann fyrir utan húsið og gengur inn.

1:35 = Skotárásin á ganginum.

1:38 = Travis reynir að skjóta sig, en öll skotin eru búin.

1:42 = Travis er túlkaður sem hetja.

1:43 = Travis hittir aftur gömlu félaga sína á leigubílastöðinni.

1:44 = Travis keyrir Betsy, en nær engu sambandi við hana.

1:45 = THE END.

Tilræðið við Bandaríkjaforseta, Byggt á grein í DV laugardag 17. júlí 1999:

SEX SKOT 30. mars 1981 stóð John W. Hinckley yngri fyrir utan Hilton-hótelið í Washington og beið eftir Reagan forseta sem hafði verið að ávarpa ráðstefnugesti á hótelinu. Þegar forsetinn kom út á gangstéttina ásamt öryggisvörðum og öðru fylgdarliði dró Hinckley upp skammbyssu og skaut sex skotum, hverju á fætur öðru.

Ein kúlan hitti Ronald Reagan í bakið og hefði gengið inn í hjartað hefði hún ekki lent á rifbeini og breytt við það stefnu svo hún gekk í staðinn inn í neðri hluta vinstra lungans.

John Hinkley skotárásin á Reagan Bandaríkjaforseta 1981

Í nokkrar sekúndur virtist forsetinn ekki átta sig á að hann hefði orðið fyrir skoti. Hann hugaði að James Brady, blaðafulltrúa sínum sem lá á jörðinni, lífshættulega særður. Forsetinn virti sömuleiðis fyrir sér þá Timothy McCarthy öryggisvörð, og Thomas K. Delahanty lögreglumann, en báðir urðu þeir fyrir skotum.

UPPHAF SÖGUNNAR Í æsku bar ekki á neinu afbrigðilegu í fari John W. Hinckelys yngri. Hann var hins vegar dekraður. Foreldrar hans bjuggu í Dallas í Texas en síðar fluttist fjölskyldan til útborgar Denver, Evergreen. Pilturinn var vel gefinn, gekk vel í skóla og fór að lokum í Tækniháskólann í Texas, þar sem hann las viðskiptafræði. Í háskólanum var hann lítt mannblendinn. Hann var mikið einn, hlustaði á Bítlana, æfði sig gítar og samdi lög. Smám saman sannfærðist hann um að fyrir sér ætti að liggja að verða nýr John Lennon.

Í apríl 1976 skrifaði John foreldrum sínum og sagðist hættur í háskóla. Hann flutti til Los Angeles og freistaði gæfunnar sem rokktónlistamaður. Honum vegnaði ekki vel og enginn vildi hlusta á lögin hans. Hann varð þunglyndur, leitaði huggunar í ruslfæði og tók að fitna.

TAXI DRIVER Dag einn fór John í kvikmyndahús til að drepa tímann. Hann fór fyrir tilviljun á Taxi Driver. John sat sem lamaður meðan horfði á myndina. Honum fannst hann vera Travis Bickle. Einmannaleikinn var þeirra beggja. John sá myndina 15 sinnum.

John varð gagntekinn af geðveika leigubílstjóranum og hrifinn að því hvernig hann "bjargaði" Íris Jodie Foster. Hann gerði ekki greinarmun á persónum og leikendum og Jodie Foster fór að fá aðdáendabréf frá óþekktum aðila.

Eftir nokkurn tíma varð John ljóst að hann var ekki að ná til Jodie og hann flutti aftur til Texas. Travis Bickle var þó enn mikið í huga hans.

NÝNASISTI Eftir nokkurn tíma hætti John að lesa viðskiptafræði og hóf nám í blaðamennsku. Hann fylltist hatri og fann samhljóm meðal nasista. Hann gekk í flokkinn og tók þátt í mótmælagöngum þeirra. Foreldrum hans var brugðið, þau hótuðu að hætta að senda honum peninga. Þau pöntuðu tíma hjá geðlækni, sem lýsti því yfir, eftir nokkur viðtöl, að John væri ekki geðveikur, en hefði þó tilhneigingu til þunglyndis. John samdi á þessum tíma "Sálsýkisleg ljóð", sem hann kallaði svo. Þau fjölluðu öll um einmanaleika, vonbrigði og þrá eftir Jodie Foster.

BYSSUKAUP Árið 1979 hætti John endanlega háskólanámi og tók á leigu litla íbúð í Dallas. Hann lifði þar á ruslafæði og tók að fitna á ný. Hann gekk aftur í nasistaflokkinn og fyrir utan fundi þar þá hékk hann einn í íbúðinni. Þar kom að John taldi sig þurfa vopn og hann keypti sams konar byssu og Travis Bickle notaði í Taxi Driver. Hann prófaði meira að segja rússneska rúllettu á sama hátt.

John Hinckley í rússneskri rúllettu

Í maí 1980 las John að Jodie Foster hafi lagt kvikmyndaleik á hilluna og væri komin í Yale háskólann í New Haven. John hélt þangað og tók á leigu herbergi nærri háskólanum. Loks gat hann verið nærri sinni heitt elskuðu. Hann sendi henni ljóð og ástarbréf en hún vildi hvorki heyra í honum né sjá.

NÝ HUGMYND John Hinckley yngri fékk nýja hugmynd, enn frá kvikmyndinni Taxi Driver. Hann ákvað að myrða Bandaríkjaforseta, Jimmy Carter. Bæði átti þetta morð að vera upphaf nasistabyltingar í Bandaríkjunum og hins vegar myndi Jodie Foster loks sjá að hún væri að missa af manni ekki minna mikilvægum en Travis Bickle. En rétt eins og í kvikmyndinni komu lífverðir forsetans í veg fyrir nokkurt tilræði. John Hinckley var stöðvaður a.m.k. tvisvar.

Á næstu misserum ferðaðist John þvert yfir Bandaríkin, til Hollywood í enn einni tilraun til að ná athygli Jodie Foster og loks til höfuðborgarinnar, Washington. Ronald Reagan var þá tekinn við og John Hinckley tókst loks 31. mars árið 1981, fyrir utan Hilton hótelið í  að skóta forsetann. Ronald Regan forseti var að koma út af hóteli þar sem hann hafði haldið fyrirlestur. Stóru sjónvarpsstöðvarnarí Bandaríkjunjm (ABC, CBS og NBC) voru allar mættar og stóðu með myndavélar tilbúnar þegar hann gekk út. Þess vegna eru þessi myndbönd til:

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=1P4AyN7zb90

Önnur útgáfa af myndefninu:

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=3Bj6aOgfcJU

Þriðja útgáfan:

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=e-cKPe7E-wI

John Hinckley handtekinn

Vegna þessa tilræðis var hafa eftirfarandi varnarðarorð birst þegar myndin er sýnd í sjónvarpi.

"TO OUR TELEVISION AUDIENCE: In the aftermath of violence, the distinction between hero and villain is sometimes a matter of interpretation or misinterpretation of facts. TAXI DRIVER suggests that tragic errors can be made. The Filmmakers".

Að lokum kemur hér stuttmynd (6 mínútur) "Dear Jodie", sem lýsir vel ástandi John Hinckley Jr. á krítísku augnabliki.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=6jU5oUfBlpA

Myndin Taxi Driver hefur verið kosin sem: “The 25 Most Dangerous Movies” (Premiere). Geta kvikmyndir verið hættulegar í þessum skilningi?

Taxi Driver 40 ára

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=SoSsh67drok

skilaverkefni. 5+1 spurning

1. Leikaðferðir. Við höfum áður borið saman leikhús-aðferð eða Method Acting leikaðferð. Menn eru sammála um að Robert De Niro sé einhver albesti fulltrúi annarrar þessarar aðferðar í þessari mynd. Hvorrar? Vegna?

2. Hvaða merki sérð þú um geðræn vandamál hjá Travis Bickle? Nefndu nokkur atriði sem sjá má frá byrjun. Vandamál hans eru augljóslega að aukast þegar líða tekur á myndina. Hvaða kaflaskil getur þú greint? Skoðaðu myndirnar 5 efst í blogginu, sem lýsa þessari þróun.

3. Oft er gerður greinarmundur á gods eye view og þröngu sjónarhorni í kvikmyndatöku. Guðs sjónarhorni má lýsa þannig að myndavelin er ofanfrá og við sjáum sjónarhorn allra / margra, en þrönga sjónarhornið er bara sjónarhorn einnar persónu. Taxi Driver er oft sögð vera besta dæmið sem til er um annað af þessu. Hvort? Útskýrðu með dæmum.

4. Nokkrir sterkir umsnúningar eru í myndinni. Hvaða þrjár stórar stefnubreytingar sérðu í myndinni? Ég spái því að þær séu eftir ca. 30%, 60% og svo alveg í lokin. Sammála? Hverjir eru umsnúningarnir?

5. Áhrif Taxi Driver eru augljós, þegar skotárásin á Ronald Regan, þáverandi forseta Bandaríkjanna er skoðuð, en hvað er þessi gamla mynd frá 1976 að segja okkur um ástandið í Bandaríkjunum í dag? Hvað er kvikmyndin að segja okkur um þau vandamál sem eru svo áberandi í heiminum í dag?

6. Ekki gleyma að segja í lokin þitt persónulega álit á myndinni. Nefndu bæði jákvæða og neikvæða hluti.